Fréttir

Aðalstjórn | 19. febrúar 2025

Frá aðalfundi Keflavíkur

Aðalfundur Keflavíkur var haldinn hátíðlega sl. þriðjudag 18. febrúar.  Það var mjög góð mæting á fundinn og var ánægjulegt að sjá fullan sal af gestum.  Árið var mjög gott og rekstur allra deilda í góðu jafnvægi eins og sjá má á ársreikningum.    Þar ber helst að þakka óeigingjörnu starfi sjálfboðaliða sem við erum mjög lánsöm með í deildum félagsins.  Á liðnu ári varð félagið 95 ára og í ár munu 2 deildir innan félagsins fagna stórafmæli en Fimleikadeildin verður 40 ára og Taekwondo deildin 25 ára.  

Umfang íþrótta innan Keflavíkur er gríðalegt. Á árinu 2024 voru haldnir rúmlega 2300 viðburðir/leikir í yngri flokkum, rúmlega 10 þúsund æfingar og
erum við með rúmlega 90 þjálfara að störfum. Að auki varð um 25% aukning á iðkendum hjá félaginu hjá 18 ára og yngri og erum við með um 3000 iðkendur.  Þessu er öllu stýrt að mestu leyti í sjálfboðaliða starfi.

Dagskrá var hefðbundin og fundarstjóri var Böðvar Jónsson sem stýrði fundinum af röggsemi. Björg Hafsteinsdóttir formaður félagsins flutti skýrslu stjórnar og óhætt að segja að hún hafi verið mjög jákvæð og góð.  Það eru spennandi tímar framundan í félaginu okkar.  Litlar breytingar hafa verið á aðalstjórn félagsins síðustu ár sem skapar stöðugleika.  Björg Hafsteinsdóttir var endurkjörinn formaður og aðrir sem skipa stjórnina eru Sveinbjörg Sigurðardóttir, Garðar Newman, Eva Björk Sveinsdóttir, Jónína Steinunn Helgadóttir, Stefán Guðjónsson, Garðar Örn Arnarson og Guðmundur Steinarsson sem kemur nýr inn.

Hér má nálgast skýrslu stjórnar og ársreikning  Skýrsla stjórnar og ársreikningur

Það er mikilvægt að þakka fyrir óeigingjörn störf til okkar góða fólks sem hefur lagt félaginu hjálparhönd.  Að þessu sinni voru eftirfarandi viðrkenningar veittar á fundinum

  • Starfsbikar Keflavíkur hlaut Davíð Örn Óskarsson fyrir óeigingjarnt starf fyrir félagið.
  • Gullstarfsmerki Keflavíkur fékk Eva Björk Sveinsdóttir ritari aðalstjórnar fyrir 15 ára stjórnarsetu í félaginu.
  • Gullheiðursmerki Keflavíkur var veitt þeim Smára Helgasyni fyrir stjórnarstörf sl. 21 ár og hjónunum Þorsteini Erlingssyni og Auði Bjarnadóttur en þau hafa verið stórir styrktaraðilar og stuðningsmenn Keflavíkur sl. 30 ár.
  • Sifurheiðursmerki Keflavíkur fengu þeir Þórólfur Þorsteinsson eða Dói eins og við þekkjum hann vel fyrir góð störf fyrir félagið sl. 21 ár og Jón Ólafsson fyrir stjórnarstörf og sjálfboðaliðastörf sl. 30 ár

Við óskum þeim hjartanlega til hamingju.

Aðalstjórn vill koma á framfæri þakkir til allra sem sáu sér fært að mæta og Sunddeildinni okkar fyrir sjá um myndarlegt kaffihlaðborð í hléi.

Áfram Keflavík

 

Myndasafn