Fréttir

Aðalstjórn | 26. september 2024

Hvar verður þú á laugardaginn?- Pistill formanns

HVAÐ ER MIKILVÆGT ??

 

Næstkomandi laugardagur, 28. september  verður stór dagur hjá okkur í Keflavík, Íþrótta- og ungmennafélagi , sannkölluð íþróttaveisla. Ég fullyrði að aldrei í sögu félags hafi lið  spilað um 3 titla í Meistaraflokki sama daginn.  Það finnst mér mjög áhugavert og alger veisla fyrir okkur stuðningsmennina.

Það eru svona dagar sem þjappa okkur Keflvíkingum saman, efla félagsandann og gera okkur stolt því við elskum að vinna titla.

Klukkan 14 á laugardaginn mun karlaliðið okkar í knattspyrnu spila úrslitaleik  á Laugardalsvelli um það að komast upp í efstu deild, Bestu deildina.  Við vitum öll hversu mikilvægur þessi leikur er, við vitum öll hversu mikilvægt það er að hafa lið í efstu deild, við vitum öll að það er mjög mikilvægt að fjölmenna á leikinn og styðja drengina til að ná þessu markmiði. 

Eftir leikinn á Laugardalsvelli brunum við til Keflavíkur og beint í Blue höllina.  Spilað er um Meistara meistaranna hjá KKÍ og þar eru 2 titlar í boði.  Ísland- og bikarmeistarar Keflavíkur í kvennaflokki munu spila gegn Þór Akureyri kl. 16:30 og svo munu Bikarmeistarar Keflavíkur í karlaflokki spila gegn Val kl. 19:15.  Körfuknattleikstímabilið formlega að hefjast, langur og strangur vetur framundan hjá okkar liðum.  Körfuknattleiksliðin okkar þurfa líka stuðning.

Svona stórir dagar eru það sem okkur stuðningsmennina dreymir um.  Það er hluti af því að vera stór að vera að berjast um titla.  Við sem Keflvíkingar þurfum hins vegar að vera viss um það þennan laugardag að  það hefur aldrei verið mikilvægara að mæta og styðja sitt lið. Hver einasti stuðningsmaður er mikilvægur. Þetta verður okkar dagur, klædd í dökkblátt, látum í okkur heyra og styðjum liðin okkar til sigurs.   Siglum 3 titlum í hús þennan laugardag. 

 

ÁFRAM KEFLAVÍK

 

Björg Hafsteinsdóttir

Formaður

 

Myndasafn